Stefán Jónsson er íslenskur myndlistarmaður, fæddur á Akureyri 1964.

Allan sinn listamannsferil hefur hann fengist við að búa til höggmyndir sem sækja andagift í listasöguna. Hann hefur leitað fanga víða og jafnt til íslenskra sem erlendra myndlistarmanna. Lengst af notaði hann Legókall sem staðgengil manneskjunnar í þeim verkum sem hann vann út frá og má segja að hann hafi verið sá samnefnari sem tengdi verkin saman, myndrænt.

Til að byrja með voru þessi verk frekar lítil um sig og áherslan lögð á manneskjuna en ekki umhverfið sem hún var staðsett í. Smám saman þróuðust verkin og umhverfið fór að taka sífellt meira pláss þangað til svo var komið að hann var farinn að gera hrein landslagsverk, sem þó voru þrívíð, og Legókallinn horfinn með öllu.

Að undanförnu hefur Stefán verið að gera höggmyndir sem byggjast á túlkun hans á landslagsmálverkum Jóhannesar Kjarval. Þessi verk eru unnin með ólíkum efnum jafnt klassískum svo sem gifsi og bronsi og óhefðbundnum eins og gólfefnum, baðherbergisflísum og garni.

Samhliða þessu hefur hann fengist við að gera tölvuunnar grafíkmyndir þar sem skeytt er saman höggmyndunum, ljósmyndum af Stefáni, landslagsmálverkum Kjarvals og ljósmyndum af honum.

Listasagan er Stefáni óþrjótandi brunnur nýrra hugmynda. Hann gengur inn í málverk annarra listamanna og vinnur úr því sem hann upplifir og sér í þeim og túlkar það í höggmyndum.

Sjálfsmynd 1 og 2
Upphafssíða